Ásbyrgi
5 km

Ýmsar tilgátur hafa verið settar fram um tilurð þessarar hamrakvíar en líklegust er sú að hún hafi myndast þegar tvö hamfarahlaup urðu í Jökulsá á Fjöllum, hið fyrra fyrir um 8 -10 þúsund árum og hið síðara fyrir um 3 þúsund árum.

Þjóðsagan skýrir þetta náttúrufyrirbæri á annan hátt. Sagan segir að þarna hafi Sleipnir, hestur Óðins, stigið fast niður fæti þegar hann var á ferð sinni um lönd og höf. Ásbyrgi sé því hóffar Sleipnis og eyjan í miðjunni sé far eftir hóftunguna. Bergið í veggjum Ásbyrgis er úr beltóttu dyngjuhrauni. Hraunið rann frá gígnum Stóravíti efst á Þeistareykjarbungu fyrir 11 – 12 þúsund árum, skömmu eftir að jöklar ísaldar hörfuðu af svæðinu. Jarðfræðingar nefna hraunið Stóravítishraun. Stóravítisdyngjan er af sömu gerð eldfjalla og Skjaldbreiður og Trölladyngja og er stærsta hraundyngja landsins að efnismagni.
Ásbyrgi í Jökulsárgljúfrum er innan Vatnajökulsþjóðgarðs og er mikill ferðamannastraumur þangað yfir sumartímann. Lagðir hafa verið göngustígar um svæðið og sett upp lítil upplýsingaskilti við þá, um þær trjá- og blómategundir sem þarna leynast. Ýmsar lengri og styttri gönguleiðir eru um svæðið. Skipulagðar gönguferðir eru á sumrin og hægt er að fá upplýsingar um þær í Gljúfrastofu, gestastofu þjóðgarðsins, við tjaldstæðin fremst í mynni Ásbyrgis.

Most Recent Projects